Er manni viðbjargandi?

Ég var vöknuð klukkan sex. Ótrúlega ógeðslegt veðrið, rigning og stormur svo það hvín og syngur í öllu. En það var samt ekki það sem vakti mig heldur öskrandi kvikindið á hæðinni fyrir ofan. (Maður verður bitur þegar maður missir nætursvefn marga daga í röð)

"Kvikindið" er 14 mánaða gamalt barn. Mætti stundum halda að það væri andsetið því öskrin eru þvílík.  Hann grætur ekki, hann kjökrar ekki heldur bókstaflega öskrar. Hann öskrar svo mikið og hátt að manni finnst hann vera bara í rimlarúmi beint við hliðina á mínu.

Ég finn óskaplega til með foreldrunum, því hann hefur gargað "nonstop" síðan hann fæddist. Fæ sting í hjartað þegar ég mæti mömmunni á ganginum, með tóm augun sem öskra hljóðlega "Hjálp! Ég get ekki meir! Verð að fá að sofa!"

 

Ég er ennþá á fullu í að taka til í lífinu. Gengur bara bærilega svo ég segi sjálf frá.  Er ennþá hætt að reykja og sakna þess ekki snitti. Er líka ennþá í ræktinni og er nú komin með þokkalega vöðva þrátt fyrir að hafa ekki æft lengur en raun ber vitni, auk þess sem ég get hlaupið stanslaust á 9.2 í heilar sex mínútur. Gæti meira að segja hlaupið aðeins lengur en er alltaf að bæta við tímann.  Menn þurfa að átta sig á því að ég hef aldrei hreyft mig að ráði og hef reykt nánast stanslaust í 13 ár.

Fór líka í að taka til í fjármálum. Ég er eyðsluglöð fram úr hófi. Og vitiði, í heimabankanum mínum get ég stjórnað hversu mikla yfirdráttarheimild ég get fengið mér. Trúið mér, þessi fídus er aldrei notaður til þess að lækka hana.  Nú, svo ég ákvað eftir að rann upp fyrir mér ljós að lausaskuldirnar voru orðnar svo háar að ég hefði getað keypt mér draumabílinn útúr kassanum eða gert bæði upp eldhúsið og baðið að það væri tími til kominn að gera eitthvað í málunum, í stað þess að rúlla þessu endalaust á undan mér.

Ég fór titrandi með hjartsláttartruflanir, ógleði og svita eftir bakinu niður í banka, og meira að segja þurfti ég að taka skyndijóga og hugleiðslu meðan ég beið eftir þjónustufulltrúanum (aldrei verið mikið fyrir að bíða).

 9135~Stressed-is-Desserts-Posters

Hitti þar fyrir indæla konu, passaði mig meira að segja á að fara ekki í mitt gamla útibú því það er svoo langt í burtu Blush Allavega, við komumst að því að það væri besta leiðin að taka eitt stórt lán fyrir öllum herlegheitunum og byrja að spara. Og það væri líka sniðugt að setja aukapening inn á höfuðstólinn mánaðarlega svo við myndum greiða lánið hraðar niður.

En ég gleymdi samt að láta hana taka út þennan yfirdráttarfídus í heimabankanum, verð aðmuna að biðja hana um að gera þetta lítilræði fyrir mig, annars er ég í djúpum skít. Þetta er síðasta hálmstráið nefnilega, svolítið eins og hjáveituaðgerðin, ef ég klúðra þessu að þá er mér ekki viðbjargandi Errm

Planið er s.s þetta: Borga yfirdrætti og eitt lítið skitið skuldabréf. Loka visakortum. Vera bara með eitt debetkort. Borga inná lán aukalega. Safna fyrir því sem mig langar í. Já þetta er svona helsta.

Ef þið lumið á nettum sparnaðarráðum, endilega deilið þeim með mér. Veit hvernig á að spara í mat svo það er ekki vandamál. Meira svona "heimilisbókhaldsaðhaldsráð".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lovísa

Úff, ekki öfundsverð staða hjá þér með barnið sem nágranna og greyið móðirin

En því miður luma ég ekki á neinum sparnaðarráðum. Væri til í að fá svoleiðis sjálf.

Lovísa , 27.9.2007 kl. 18:41

2 Smámynd: Rannveig Lena Gísladóttir

Gangi þér vel í heimilisbókhaldsaðhaldinu og því öllu.  Ég er alltaf að taka mín mál í gegn... með misjafnlega slæmum árangri.  Ef árangurinn væri góður væri ég jú ekki alltaf að standa í þessu sama. 

Rannveig Lena Gísladóttir, 28.9.2007 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband